Meðferðir með gjafasæði

IVF klíníkin Reykjavík býður upp á meðferðir með gjafasæði.

Meðferðirnar henta pörum þar sem karlmaðurinn hefur engar sáðfrumur, samkynhneigðum pörum og einhleypum konum.

Hægt er að velja gjafasæði sem annars vegar er alveg órekjanlegt en hins vegar frá rekjanlegum gjöfum þar sem börnin sem getin eru á þennan hátt geta leitað upplýsinga um gjafann þegar þau eru orðin sjálfráða (18 ára). Einnig er mögulegt að nota gjafasæði frá þekktum gjafa.

Sæðið er flutt inn frá sæðisbönkum sem viðurkenndir eru af Evrópusambandinu. Sæðisgjafarnir hafa allir verið skoðaðir m.t.t. smit- og erfðasjúkdóma.

 Kaup gjafasæðis þarf að fara í gegnum IVF Klíníkina. Við bjóðum konum uppá að fara inná vefsíðu sæðisbankans þar sem hægt er að sjá alla þá gjafa sem eru í boði. Við sjáum svo um að panta og fáum sendingu frá bankanum í fyrstu viku hvers mánaðar.

Þegar sæði er keypt þarf í öllum tilvikum einnig að kaupa svo kallaðan þungunarrétt (enska: pregnancy slot). Þungunarréttur kemur í veg fyrir að fleiri en tvær fjölskyldur á Íslandi verði til fyrir tilstuðlan eins og sama gjafa. Þungunarréttur tryggir einnig rétt þega til kaupa á fleiri skömmtum frá sama gjafa eða á meðan birgðir sæðisbankans endast. Ef engin þungun verður er mögulegt að skila þungunarréttinum og fá stærsta hluta greiðslunnar til baka.

Ekki er mögulegt að panta sæði án þess að tryggja sér þungunarrétt.